
Loksins er sumarið komið hingað til Sundsvall! Og það meira að segja á hárréttum tíma fyrir Gatufesten, það hefði einfaldlega ekki verið hægt að stjórna tímasetningunni betur! Gatufesten er stærsta partý hér í Sundsvall og stendur í næstum því heila viku. Þá eru sett upp nokkur svið og veitingatjöld í miðbænum og síðan er svæðið lokað af. Hér á landi er nefnilega bannað að vera á röltinu með áfengan drykk í hendinni! Og til að toppa allt þá er meira að segja bannað að rölta á milli tjalda með plastglas í hendi, svo hver einasti veitingastaður er aukalega afgirtur og með öryggisverði við alla innganga......

Eini gallinn við þennan gleðskap er að það kostar óhemju mikið að borga sig inn á svæðið, eða 360 sænskar krónur fyrir hvern dag (rúmar 4'700 íslenskar krónur á brjáluðu gengi þessa daga). Og fyrir þann pening fær maður ekkert annað en tónlistina, matur og drykkir kosta svo aukalega. Þetta finnst okkur og mörgum öðrum Sundsvallsbúum algjört okurverð og við ætlum okkur að sniðganga hátíðina eftir bestu getu. Nema náttúrulega í gærkvöldi...... það góða er nefnilega að miðvikudagskvöldið er frítt! Sem þýðir að allt er troðfullt af fólki sem er að "spara"...... já bara svona eðlilegt fólk eins og við! Já, og svo er auðvitað annar galli á þessu öllu saman: við þurfum að fara í vinnuna næsta morgun klukkan sjö! Og vinnustaðurinn okkar er með "zero tolerance policy regarding alcohol"..... þá er nú bara betra að passa sig aðeins!

Það var allavega mjög skemmtilegt að upplifa þetta í gærkvöldi, leita að borði og standa síðan í 50 manna röð til að fá sér að borða..... En það er ennþá svo stutt síðan við Hannibal vorum á Badenfahrt (heima í Sviss) að mér finnst bara frekar lítið lagt í þessi veitingatjöld hér. Þetta er náttúrulega bara eðlilegt þar sem Gatufesten er haldin árlega og þá getur maður ekki verið að smíða og dunda sér endalaust við að búa til eitthvað einstaklega flott veitingasvæði. Einnig eru þessir staðir allir reknir af fyrirtækjum, ekki einhverjum íþróttafélögum, svo þeirra markmið er að græða sem mest á þessum fáum dögum. Og ekki misskilja mig, það er alls ekki ljótt hér, bara svo miklu minna í lagt en hvað við fengum að upplifa í haust. En sem sagt, það er ekki sanngjarnt að bera einhverja árlega haldna hátíð saman við Badenfahrt, sem er bara haldin á 10 ára fresti...... Svo ég segi nú bara "Áfram Gatufesten!" og við munum líklegast rölta framhjá svæðinu í kvöld og heyrum þá kannski aðeins í Gary Moore eða Magnus Uggla....
Keine Kommentare:
Kommentar veröffentlichen