
Annan í páskum var svo ákveðið að skella sér í dýragarðinn. Það var meiriháttar ævintýri bara að koma sér á staðinn! Það tíðkast greinilega ekki í Danmörku að taka lítil börn með í leigubíla, eða a.m.k. ekki í barnastól! Hringt var í nokkur mismunandi fyrirtæki og annaðhvort var enginn stóll í boði eða hann átti að kosta svo mikið aukalega (400 DKK) að okkur fannst bara nóg komið! Þá var einfaldlega ákveðið að Hannibal og ég mundu taka leigubíl á næsta lestarstöð á meðan litla fjölskyldan mundi hjóla þangað (með reiðhjálm og barnastól!).
Jæja, leigubíllinn kom, við settumst upp í hann og létum vita að við ætluðum að fara til Herlev station. Leigubílstjórinn var eldri maður sem talaði bara illskiljanlega dönsku, en kinkaði kolli og endurtók þó áfangastaðinn okkar, Herlev station. Svo keyrði hann af stað. Og keyrði. Og keyrði. Við keyrðum fram hjá skiltum sem við könnuðumst við, eins og Gladsaxe og Buddinge, og svo keyrðum við framhjá lestarstöð sem við könnuðumst ekkert við og þá var okkur nú farið að gruna að eitthvað væri ekki alveg eins og það átti að vera. Svo Hannibal spurði hvort við værum ekki örugglega á leiðinni til Herlev station? Jújú sagði leigubílstjórinn og hélt áfram að keyra um allskonar hverfi sem við höfðum aldrei séð áður.
Þegar við nálguðumst svo loksins einhverri lestarstöð þar sem hann ætlaði að stoppa þá spurði hann okkur hvort við hefðum verið "bange" að hann mundi ekki rata...... Já, við vorum "bange"! Og eftir að hafa borgað leigubílareikninginn upp á 200 DKK (bara til að koma okkur á næstu lestarstöð!) fórum við út úr bílnum og leituðum að litlu fjölskyldunni..... þangað til við lásum skiltið yfir stöðvarinnganginum: Hellerup!
Djö.....!!!! Sá hafði grætt á okkur! Og sett okkur svo út á kolvitlausum stað alveg hinumegin í bænum! Jæja, eins gott að maður er nokkuð sleipur í að nota lestarkerfið í Köben. Það var bara hringt í frænda og ákveðið að hittast á lestarstöðinni hjá dýragarðinum......


Allt í allt var þetta mjög vel heppnuð ferð til Kaupmannahafnar, en varið ykkur á dönsku leigubílstjórunum ef þið þekkið ekki leiðina sem þið ætlið að fara!!!
Keine Kommentare:
Kommentar veröffentlichen