

Eftir smá hressingu á næsta kaffihúsi (aðallega til að gefa börnunum hádegismat) fórum við af stað í gegnum miðbæinn í áttina að ánni Aare. Þar fundum við mjög skemmtilega gönguleið meðfram ánni að lítilli vatnsvirkjun og tilbaka hinumegin við ánna. Samkvæmt skiltinu sem við sáum átti önnur leiðin að vera 35 mínútur og það fannst okkur bara mjög passlegt til að láta börnin sofa svolítið á meðan við fengum okkur góða hreyfingu í ferska loftinu. Það tók okkur um 45 mínútur að ná að virkjuninni þar sem vegurinn var ekki malbikaður og við þurftum stundum að aka varlega yfir einhverjar trjárætur eða aðrar ójöfnur á frosnu jörðinni. En við vorum ennþá ferskar og glaðar yfir að geta labbað í svona flottu umhverfi. Ekki grunaði okkur að leiðin á hinum bakkanum væri eitthvað öðruvísi eða erfiðari en leiðin sem við áttum að baki, svo við héldum ótrauðar áfram.
Eftir korterslabb mjókkaði göngustígurinn meira og meira og við gátum ekki verið hlið við hlið lengur. Svo lentum við allt í einu á svakalegri brekku upp í móti, þar sem við þurftum að hjálpa hvor annarri með vagnana. Svo mjókkaði stigurinn enn meira og hallaði meira að segja snarbratt niður að bakkanum.... okkur var alveg hætt að lítast á þetta, en við nenntum einfaldlega ekki að snúa við og vorum líka alltaf að vonast til að þessi erfiði kafli væri bara mjög stuttur...... Jæja, hann var ekki stuttur! Og við löbbuðum endalaust fram og tilbaka og vorum að bera vagnana yfir erfiðustu spottana. Börnin voru löngu vöknuð af öllum hristingnum en þeim fannst þetta sem betur fer bara skemmtilegt að horfa á mömmurnar sínar svitna! Undir lokin vorum við svo orðnar ansi góðar í að keyra á góðri ferð yfir allskonar ójöfnur á þessum mjóa, hallandi göngustíg (þetta var virkilega bara "göngu"stígur!) og göngutúrinn var orðinn að tveggja tíma maraþon!
Svona mikil erfiðisvinna kallaði á smá afslöppun á leiksvæðinu sem varð á vegi okkar og svo vorum við náttúrulega öll orðin glorhungruð (sérstaklega mömmurnar) og skelltum okkur á "Spaghetti Factory" til að borða eitthvað. Símon og Anna fengu upphitaðan graut (yndisleg þjónusta á staðnum!) og voru síðan að leika sér saman, þ.e. Anna var að leika sér og rétti Símoni eða mér einhver leikföng sem hún endurheimtaði síðan strax aftur..... Æðislegur dagur, en ég er ennþá með smá strengi eftir allt þetta labb og klífur!
2 Kommentare:
Haha...skemmtileg lesning..sé ykkur fyrir mér rogast með kerrurnar á þessum slóðum :) En þetta verður eflaust eftirminnilegur göngutúr :)
´
Nú fer að styttast í heimkomu...sjáumst fljótlega.
Þórey
Já, ég held ekki að ég gleymi þessum göngutúr á næstunni.... og ég fer örugglega ekki aftur að labba þarna með barnavagn!!!
En hlakka til að koma heim og blaka aftur!
Sjáumst í síðasta lagi í mars....
Kommentar veröffentlichen