Donnerstag, 24. Dezember 2009

Fyrstu dagarnir í Sviss


Jæja, þá er loksins komið að því að ég er aftur komin í netsamband við umheiminn. Margt hefur gerst á þessari síðustu viku, fyrst og fremst náttúrulega ferðin okkar til Sviss. Það kom okkur eiginlega á óvart hversu auðvelt það var að ferðast með litla kútinn okkar, en hann stóð sig eins og hetja á flugvellinum, í flugvélinni og síðan í bílnum frá Friedrichshafen til Baden. Í Friedrichshafen var 8 stiga frost og brjáluð snjókoma þegar við lentum og var bróður minn næstum því í vandræðum með bílinn þegar hann sótti okkur. En bara næstum því sem betur fer! Á leiðinni heim til mömmu stoppuðum við rétt hjá Konstanz hjá æskuvinkonu minni, henni Babs, og fengum að skoða nýjasta fjölskyldumeðliminn þar sem er einungis 3 mánuðum eldri en Símon. Eftir smá Glühwein og Weihnachtsstollen keyrðum við svo áfram og komum loksins heim rétt um kvöldmatarleytið. Rosalega var mamma glöð að sjá okkur!



Strax næsta dag datt svo hitastigið alveg niður í kjallara og var um 13 gráðu frost þegar það var sem kaldast. Við drifum okkur samt út í góðan göngutúr til að prófa flottu kerruna sem við fengum lánaða handa Símoni. Hún stóðst prófið og Símon svaf vært og var hlýtt allan tímann. Um kvöldið var síðan fjölskyldujólaboð heima hjá bróður pabba, þar sem öll systkyni pabba og afkomendur þeirra hittust (Þetta er nú ekki svo margt fólk, þau voru bara 4 systkyni og tvö þeirra áttu engin börn....). Símon er fyrsta Freuler-barnið nýrrar kynslóðar og fékk þar af leiðandi mikla athygli allt kvöldið.


Næstu daga notuðum við til að slappa af, kíkja nokkrum sinnum í bæinn og festa einhverja nýja rútínu fyrir Símon. Hann sefur ótrúlega vel úti í vagninum, en næturnar eru ennþá smá vandamál. En nú höfum við nógan tíma til að vinna í þessu og náði hann t.d. í gær góðum 6 tíma samfelldum svefni!

Mamma sá um að skreyta jólatréið í gærkvöldi og Símon horfði á, alveg hugfanginn. Hann hefur það hvort eð er alveg rosalega gott hér, nú eru 3 manneskjur sem skiptast á að halda á honum, leika við hann og skipta á honum. Lífið hans er aldrei leiðinlegt, kannski sefur hann þess vegna svona vel yfir daginn, hann er einfaldlega uppgefinn eftir alla þessa athygli!

En nú er kominn tími fyrir Símon að vakna og fara í bað og við viljum nota tækifærið og óska ykkur öllum enn og aftur gleðlilegrar hátíðar!

Jólagjöfin okkar í ár eru eftirfarandi tvær myndir af litla prinsinum sem ættu að fá alla til að brosa....

2 Kommentare:

Anonym hat gesagt…

Gleðileg jól elsku Susanne. Takk fyrir samveruna á árinu. Sé að ekki væsir um ykkur hjá mömmu þinni, vona samt að þið viljið koma heim aftur :-)
Kv. Svala

Anonym hat gesagt…

Mikið var. Greinilega búið að vera mjög gaman hjá ykkur þessa fyrstu daga :) Gott að þið eruð að njóta þess að vera í dekri hjá mömmu þinni, þetta á örugglega eftir að vera frábær tími hjá ykkur. Sakna ykkar og hlakka til að hitta ykkur á nýja árinu en vona bara að þið hafið það alveg svaaaaaakalega gott þangað til :)