Freitag, 12. Februar 2010

Símon að æfa svissnesku

Jæja, nú er litli gaurinn búinn að hlusta nógu lengi á þetta skrítna tungumál hér og er sjálfur farinn að æfa framburðinn.... Hann er mjög duglegur og nær þessu bara ansi vel, næstum því eins og innfæddur!!!


Annars vorum við Símon svolítið á ferðinni þessa viku. Á þriðjudaginn skruppum við til Andreu vinkonu í Zug þar sem við fórum í laaaaangan göngutúr meðfram vatninu. Það var skítkalt en mjög fallegt líka. Á göngutúrnum löbbuðum við framhjá stóru bóndabýli þar sem við stoppuðum aðeins til að skoða litlu kálfana sem voru þar fyrir utan. Þá kom vinnumaður úr fjósinu til okkar og bauð okkur inn til að skoða, sem við og gerðum. Þetta var alveg glænýtt fjós, rísastór bygging úr ljósu timbri, há og björt, með stórum gluggum á veggjunum og í þakinu. Inni voru fleiri kálfar og fullt af beljum sem komu ein á eftir annarri inn úr mjólkurstöðinni. Flott að fá að skoða svona fallegt fjós! Svo var líka algjör snilld að keyra til Zug á nýju hraðbrautinni sem er ekki inni í kortinu á GPS-leiðsögutækinu hennar mömmu (tækið er u.þ.b. þriggja ára gamalt), svo á meðan ég keyrði þessa leið sá ég bílinn bara einhversstaðar út á túni á skjánum..... frekar fyndið!


Í gærkvöldi fór mamma að spila Bridge, Hannibal og Michi þurftu að klára að föndra búningana sina fyrir Fasnacht og ég sá fram á að hanga ein heima með Símoni. En svo hringdi Theres, systir pabba, og bauð okkur (eða frekar mér) í Fondue hjá henni og Heinz, sem er guðfaðir minn. Ég gat fengið bílinn hennar mömmu og keyrði í gegnum mikla snjókomu (það er aftur allt komið á kaf í snjó hér!) upp til þeirra. Þau búa einnig hér í Baden, en hátt uppi hinumegin við bæinn. Nú er saltskortur hér í Sviss og þess vegna orðið ævintýralegra að keyra en venjulega.... Það var samt ekkert mál og við Símon eyddum notalegt kvöld hjá þeim. Símon varð reyndar svo æstur í að leika sér að ég þurfti að klæða hann meira og meira úr fötum sínum. Bara stuð á honum þessa daga!

Keine Kommentare: