Montag, 8. Februar 2010

Boltaíþróttir

Nú er Símon byrjaður að æfa boltaíþróttir alveg á fullu. Sökum skorts á blakbolta á þessu heimili þá er hann dottin í golfíþróttina en ég vona fastlega að við getum breytt þessu um leið og við komum aftur heim...... Annars er allt gott af okkur að frétta. Símon heldur áfram að taka tennur og er þess vegna stundum svolítið vælandi og vaknar líka nokkrum sinnum yfir nóttina (hann róast fljótlega aftur, en ég ligg síðan vakandi eitthvað lengur og það er frekar þreyttandi), en ég lifi þetta alveg af, engar áhyggjur!


Hannibal og bróðir minn eru farnir að undirbúa búningana fyrir "Fasnacht". Þeir ætla að fara á tvö böll um helgina þar sem þeir og tveir vinir Michi's verða í heilgrímubúningum. Ég má því miður ekki lýsa búningunum nánar en ég skal reyna að fá myndir af þeim til að sýna hér þegar böllin eru búin (Tilgangurinn með að vera í heilgrímubúningi á balli er víst sá að enginn þekkir mann, þess vegna má ég ekki segja frá neinu fyrirfram..... En ég er alveg viss um að þetta verður stórkostlegt hjá þeim!). Allavega voru þeir fjórir að föndra saman á föstudaginn var á meðan mamma fór að spila Bridge og við Símon heimsóttum "gamla vinkonu" sem ég þekki frá því að við vorum saman í hestafrí á unglingsárum.


Það er virkilega frábært að vera svona lengi hér í Sviss, þá nær maður loksins að hafa samband aftur við fólk, sem maður hefur ekki hitt í bráðum 20 ár! Og ég ætla pottþétt ekki að láta önnur 20 ár liða þangað til við hittumst aftur!!!! Þessi vinkona mín hefur líka búið erlendis í nokkur ár, aðallega í Skotlandi, en er núna flutt heim aftur og býr rétt hjá Baden með ítalska manni sinum og tveggja ára syni þeirra. Karen og Francesco buðu mér í mat um kvöldið og fékk ég gómsætan ítalskan sjávarfisk sem þau græjuðu meira að segja þannig að ég þurfti ekki að horfa á haus eða sporð á diskinum hjá mér (ég borða nefnilega bara fisk sem lítur ekki lengur út eins og fiskur..... er svolítið viðkvæm í þeim málum.....). Þau sögðu þau þurftu hvort eð er að úrbeina fiskinn fyrir Nicholas, þá gætu þau alveg eins gert það fyrir mig líka. Rosa gaman að vera sett á sama stig í matarmálum og tveggja ára strákur!!!


Fallegi snjórinn sem var hér næstum því allan janúar er því miður farinn í bili. Á þriðjudaginn var fengum við æðislegt veður til að njóta síðasta göngutúrsins í snjónum. Símon náði ekki að sofna í BabyBjörn og var orðinn ansi þreyttur þegar við vorum að koma heim eftir einn og hálfan tíma í sólinni. En augun á honum lokuðust um leið og ég lagði hann í vagninn. Nú biðum við bara eftir næstu snjókomunni sem er spáð á morgun eða hinn....


Á fimmtudaginn í síðustu viku bauð mamma mér í leikhúsið í Baden. Prógrammið sem var sýnt hét "Leo Wundergut & Swiss Tenors, live auf Konjunk-Tour". Þetta var voða furðuleg blanda af klassískum og nútímalegum söng og leiklist með fyndnu ívafi. Ansi spes en mjög vel heppnað. Reyndar dró ég meðalaldurinn í salnum stórlega niður, en ég hafði samt gaman af þessu. Lagið hér fyrir ofan er eftir þennan Leo Wundergut, en án hinna Tenóra. Það sýnir samt mjög vel í hvaða anda sýningin var. Undir tenglinum "Mobile" hér fyrir neðan er hægt að hlusta á eitt af fallegustu lögum sem tenórarnir þrír sungu fyrir okkur.


Í gær komu Michi og Margot í mat (eins og oftast á sunnudögum) og við mamma ákváðum að prófa nýja uppskrift á beikonvöfðum kjúklingabringum. Það heppnaðist ágætlega, maturinn leit allavega út eins og á fínasta veitingastað sem vakti smá kæti hjá sumum..... Michi er ennþá að kynnast guðbarni sínu en er farinn að þora að halda honum mun meira en í byrjun. Gaman að fylgjast með þessari þróun.

Keine Kommentare: